SKRIFT OG NÁM

Markmiðið er að stuðla að aukinni fínhreyfi- og skriftarfærni

 

Teikni- og skriftarverkefni

 • Liggja á maganum við að teikna og lita.  Nota breið skriffæri.
 • Teikna myndir á stórt blað sem fest hefur verið á vegg eða lagt á gólf.
 • Nota stórar handahreyfingar við að mynda bókstafi, annað hvort við lóðréttan flöt (vegg, spegil) eða á miðju gólfi.  Mynda skýrar og ákveðnar strokur.  Láta annan geta hvaða stafur eða orð var skrifað og skiptast svo á (staðið hlið við hlið).
 • Teikna stóra bók- eða tölustafi á töflu eða annan lóðréttan flöt.  Nota má myndvarpa eða tölvu til að varpa stöfum/orðum á stórt blað á vegg.  Barnið strikar eftir útlínum og litar ofaní með breiðum lit.  Dýfa t.d. þykku garni eða pípuhreinsara í lím og móta eftir útlínum svo fram komi upphleypt brún.  Er þornað, færa fingur eftir útlínum, nefna staf og/eða hljóða það sem stafurinn segir.
 •  Draga upp mynd með því að leggja fyrirmynd að rúðu og blað yfir.  Gott er að festa blöðin aðeins (t.d. málningarlímband) svo þau hreyfist ekki úr stað en þó er mikilvægt að barnið styðji við með annarri hendi og teikni með hinni.  Byrja með einfaldar myndir og fjarlægja límband er færni eykst.
 • Teikna/strika eftir formspjöldum (skapalónum) í mismunandi stærðum.  Hægt að gera við borð eða standandi við vegg (krefst sambeitingar handanna).
 • Teikna og semja myndasögur, skrifa stuttar og hnitmiðaðar setningar undir.
 • Skrifa stutt bréf, skilaboð, ljóð, halda dagbók eða útbúa ýmiskonar lista (s.s. aðstoða við gerð innkaupalista).
 • Skrifa verkefni í stuttum lotum.  Þegar skriflegu verkefni er lokið er það lagt til hliðar um stund, og síðan lesið yfir þar sem þá reynist oft betur að greina mistök.
 • Útbúa minnislista um rituð verkefni, s.s. hvað þarf að muna eftir áður en hafist er handa og skoða að loknu verki (góð vinnuaðstaða, vandvirkni, sambeiting handanna (styðja við blað með víkjandi hönd), bil milli stafa og orða, stafsetning, snyrtimennsku, skipulag og nákvæmni, málfræði og setningaskipan).
 • Ýmis verkefni úr föndurbókum (Geitungurinn).
 • Teikna frjálst, lita í litabækur eða mála með pensli. 

Snertiskynsörvun

 • Mála með fingramálningu.  Teikna myndir, form eða skrifa stafi/orð.
 • Maka raksápu á spegil/borð og teikna eða skrifa ofan í.
 • Leika með leir eða leikdeig.  Rúlla leir í lengjur/pylsur og móta bókstafi/orð.  Færa fingur yfir útlínur að loknu verki (athugið áður að stafir hafi rétta lögun) og aðstoðið barnið við að tengja hljóð/heiti við staf, eða viðeigandi hluti eða fyrirbæri við orð.
 • Teikna með fingri ýmis form, bók- eða tölustafi á bak barnsins eða handabak án þess að það sjái, láta það geta hvað var teiknað (geta jafnvel teiknað eins á blað).

Klippiverkefni

 • Klippa út myndir úr blöðum, líma á stórt blað eða í úrklippubók.  Búa jafnvel til myndasögu og raða myndum í skipulagða röð.  Skrifa stuttan texta undir hverja mynd.
 • Klippiverkefni úr föndurbókum.
 • Teikna stóra bókstafi og tölustafi á blað, sem barnið litar og klippir síðan út.
 • Teikna línu í kringum ýmsa hluti t.d. hendi eða fót á sjálfum sér og klippa út.
 • Klippa út pappírsdúka eða karla.  Brjóta blað saman nokkrum sinnum, klippa út.

(tekið saman af, Huldu Björnsd., nóv. 2005)

 

 Ýmis ráð eru til að auka einbeitingu og verklegt úthald í skólanum

 • Oft er æskilegt að nemandinn sitji nálægt kennara þannig að hægt sé að vera með merkjakerfi þeirra á milli (augnatillit eða annað).  Sama sæti í lengri tíma er ákjósanlegur kostur, framarlega,  þar sem lítið er um sjónræn áreiti er gætu haft truflandi áhrif.
 • Huga þarf að því að utanaðkomandi áreiti trufli barnið sem minnst, t.d. umgangur eða hávaði/glampi frá glugga.
 • Staðsetja góða fyrirmynd nálægt nemanda (skipu-lagðan og vinnusaman nemanda).  Hugsanlega auka fjarlægð milli skólaborða.
 • Hafa á borðinu einungis þau námsgögn sem verið er að nota hverju sinni.
 • Auka fjölbreytni verkefna og brjóta upp námsefni svo virðist ekki óyfirstíganlegt.
 • Gefa skýrar leiðbeiningar um hvað á að vinna með hverju sinni (merkja með áberandi lit, setja bréfaklemmu á þá síðu sem unnið er með).
 • Hafa verkefni stutt í byrjun en auka síðan lengd þeirra eftir því sem úthald eykst (setja tímamörk og nota jafnvel klukku sem gefur merki eftir ákveðinn tíma).
 • Kennari noti aðferðir er höfða til mismunandi skynfæra við miðlun upplýsinga/fyrirmæla, s.s. snertingu, heyrnrænar- og sjónrænar vísbendingar (orð, myndir, merkingar, látbragð, skriflegar upplýsingar).
 • Leyfa regluleg vinnuhlé og hreyfingu (s.s. ganga um og dreifa/safna saman blöðum, þurrka af töflu, færa hluti til, fara í sendiferðir) og gera ákveðnar hlé- eða líkamsæfingar (einnig gott fyrir allan bekkinn).
 • Útbúa rólegt horn í stofunni þangað sem nemandinn getur dregið sig í hlé stutta stund,  slakað á eða litið í bók (hafa þar jafnvel þunna dýnu á gólfi, púða, hrúgald og/eða ruggustól).
 • Ef nemandi er mjög órólegur getur reynst gott að þrýsta nokkuð fast og snöggt 4-5 sinnum niður á axlir hans.  Einnig getur virkað róandi að leggja auka þyngd á axlir nemandans, grjónapúða eða bakpoka með nokkrum bókum í, í u.þ.b. 10-15 mín. í senn (á 2 tíma fresti).
 • Nemandi fái að hafa hluti hjá sér til að handfjatla og kreista, s.s. mjúkan bolta, hveitifyllta blöðru, bauna- eða grjónapoka, mjúkdýr eða annað sem fellur vel í hendi.  Einnig hluti sem hægt er að narta eða bíta í (gúmmífígúrur á blýantsenda, sogrör, vatnsflösku).  Slíkt getur virkað róandi og/eða hjálpað barni að einbeita sér að verki.
 • Sitja á boltasessu eða annarri loftfylltri sessu sem veitir barni nokkurn hreyfanleika og dregur úr þörfinni á að framkvæma hreyfiathafnir sem hafa truflandi áhrif á vinnu nemandans.  

(Hulda Björnsd. iðjuþjálfi tók saman, 2007)