Hjálpartæki og gigt - ráð iðjuþjálfa
Grein birt í Gigtarblaðinu 2005Anna María Malmquist iðjuþjálfi B.S / íþróttakennari skrifar um færnivanda fólks með gigt og gefur góð ráð varðandi hjálpartæki til að auðvelda athafnir daglegs lífs.
Færnivandi
Gigtin veldur oft verkjum, þreytu og stirðleika sem hefur áhrif á færni við daglega iðju. Fólk með gigt þarf oft að sætta sig við að ýmis verk taka mun lengri tíma í framkvæmd. Einföld verk eins og að opna sultukrukku eða hurðina heima hjá sér geta reynst erfið. Oft verður erfitt að standa upp úr lágum sófum og stólum vegna verkja í hnjám og mjöðmum eða að teygja sig í hluti úr skápum ef stirðleiki er í öxlum. Þegar vinda á borðtuskuna finna margir fyrir verkjum eins við að, skera, hræra í pottum og halda á innkaupapokum.
Hvað er til ráða
Fólk með gigt hefur ýmis góð ráð til að draga úr verkjum og lifa góðu lífi með gigt. Iðjuþjálfi ráðleggur fólki oft að nýta sér hjálpartæki, fræðast um liðvernd og iðka hollar lífsvenjur.
Hjálpartæki
Oft getur verið nauðsynleg að nota hjálpartæki til að framkvæma ákveðin verk. Með notkun hjálpartækja eins og t.d. krukkupnara dreifum við álaginu á stærri vöðvahópa og liði og verndum smáliði handarinnar. Margt fleira kemur til fólk aðlagar vinnulag að sínum þörfum og finnur leiðir til að auðvelda sér hlutina, velur húsgögn, eldhúsáhöld, potta, vélar ofl. með liðvernd í huga. Þetta auðveldar verk og dregur úr verkjum og þreytu.
Iðjuþjálfar eru sérfræðingar í vali á hjálpartækjum og geta aðstoðað við valið. Dæmi um ýmis hjálpartæki sem auðvelda daglega lífið:
- Hjálpartæki við eigin umsjá: Sokklífæra, grip fyrir lykil, sturtustóll, salernisupphækkun, göngugrind, griptöng, ýmis grip utanum hárbursta, tannbursta og naglaþjöl.
- Hjálpartæki við störf: Vinkilhnífur og vinkilostaskeri, fjaðurskæri, þykk grip utanum sleifar og áhöld til eldhúsverka.
- Hjálpartæki við tómstundir og leik: ýmis grip t.d. utanum skriffæri, fjaðurskæri og spilahaldari.
Ef vandamálið er að: | Reyndu þetta: |
Skrifa | Penna með breiðu, mjúku gripi, (hægt er að kaupa grip í bókabúðum utanum skriffæri) |
Lesa | Lesborð eða upphækkun (dregur úr álagi á hendur og háls) |
Standa við að strauja eða að elda | Sittu á háum stól (oft kallaður standstóll) og stilltu borðið í rétta hæð |
Bera hluti | Tösku sem þú getur dregið / notaðu hjólaborð heima við í stað þess að bera hluti í höndunum. |
Óöryggi við að ganga | Fjarlægðu lausar mottur, þröskulda og hafðu gott rými þar sem þú gengur |