GREINAR

Sjálfsbjargarblaðið 2008

 

 Við vinnum að auknum lífsgæðum-segja þær Anna María Malmquist og Hulda Björnsdóttir, iðjuþjálfar á Bjargi

Nú eru fjögur ár frá því farið var að bjóða upp á iðjuþjálfun á Bjargi. Þar starfa tveir iðjuþjálfar, þær Anna María Malmquist og Hulda Björnsdóttir.

„Skjólstæðingshópurinn er breiður en stærsti hópurinn er börn á skólaaldri,” segir Anna María, sem líka er íþróttakennari og það nýtist henni vel í starfinu með börnunum. „Margir skjólstæðingar okkar eru gigtarsjúklingar og einnig kemur fólk til okkar eftir að hafa fengið heilablóðfall,” segir Anna María og Hulda bætir við að margir þeirra skjólstæðinga séu jafnframt hreyfihamlaðir.

Aðstæður skjólstæðinganna eru afar misjafnar. „Við erum líka að hjálpa fólki að komast út á vinnumarkaðinn. Þetta fólk þarf ákveðna endurhæfingu og það kemur hingað til að sækja um ýmis hjálpartæki eins og spelkur, hjólastóla og fleira. Við aðstoðum það til að komast aftur til fyrri starfa eða í nám. Svo erum við líka að hjálpa fólki að takast á við athafnir daglegs lífs hvort sem það er í heimilisstörfunum í eldhúsinu, vinnunni eða tómstundum,” segir Anna María. „Markmiðið með iðjuþjálfun er í hnotskurn að auka lífsgæði skjólstæðinganna. Þetta gerum við t.d. með því að þjálfa upp fyrri færni, kenna nýjar aðferðir eða með því að aðlaga umhverfið að þörfum hvers og eins,„ segir Anna María.

„Við leggjum líka mikla áherslu á að bjóða upp einstaklingsmiðaða þjónustu. Við greinum bæði styrk og veikleika til að komast að því hvernig þeir stuðla að eða koma í veg fyrir færni við iðju,“ segir Hulda

Þjálfun barna í leikjaformi
Bjarg er eina endurhæfingarstöðin á Norðurlandi, sem býður upp á góða aðstöðu til að vinna með börn. Börnin sem eru í þjálfun á Bjargi koma því víðs vegar að,ekki eingöngu af Eyjafjarðarsvæðinu heldur allt frá Blönduósi til Húsavíkur og jafnvel enn lengra að.

„Við reynum að hafa iðjuþjálfunina í formi leiks þannig að börnin hafi gaman af því sem þau eru að fást við,” segir Anna María. „Við miðum að því að þjálfa börnin í því sem þau eiga í erfiðleikum með. Til dæmis ef þau eiga í erfiðleikum með að klippa þá einbeitum við okkur að því að auka færnina við það verk.”

Samstarf við skóla og vinnustaði
Eins og fyrr sagði er skjólstæðingahópur þeirra Önnu Maríu og Huldu mjög breiður. Því hljóta aðferðir þeirra við iðjuþjálfunina að vera fjölbreyttar og margvíslegar.

„Ætli það megi ekki segja að aldurshópurinn sé frá eins árs til níræðs. Þetta er einstaklingsmiðað starf. Allir sem koma til okkar fara í gegnum staðlað matsferli hjá okkur þar sem við leitum eftir iðjuvandamálum hvers og eins. Síðan mörkum við framhaldið út frá því og þjálfunin miðast öll við að efla færni við iðju daglegs lífs. Við erum að nota mismunandi matstæki eftir þörfum hvers og eins og leggjum okkur fram um að meta ávinning af þjónustunni. Þá erum við í góðu samstarfi við skóla og vinnustaði skjólstæðinga okkar. Í sumum tilfellum fer hluti þjálfunarinnar fram á þessum stöðum,” segja þær Anna María og Hulda.

Fólk útskrifast frá þeim eftir mislangan tíma og þá tekur við ákveðin eftirfylgni. Sú eftirfylgni er mismikil eftir þörfum hvers og eins. Fólk nýtir sér þetta og þær Anna María Malmquist og Hulda Björnsdóttir segjast finna vel hvernig fólki finnist þjálfunin hafa nýst. Þeirra starf eins og annarra á Bjargi miðast við að efla færni skjólstæðinganna, auka möguleika þeirra á þátttöku í samfélaginu og þar með efla lífsgæði þeirra og heilsu.

Gigtarblaðið 2005

Vefjagigt – Grein eftir Önnu Mariu Malmquist

Hvað er vefjagigt

Vefjagigt er ákveðin líkamleg röskun sem veldur sársauka, eymslum og stirðleika í vöðvum. Nær allir með vefjagigt upplifa svefnraskanir og ýmis önnur blönduð einkenni.

Einkenni sem eiga rætur sínar að rekja til svefnröskunar geta verið, þreyta, aukin næmni fyrir verkjum, verra minni, aukin kvíði, þunglyndi, pirringur og neikvæðni. Sumir finna fyrir magaverk, ofnæmi, breytingum á temprun líkamshita, tíð þvaglát, roða í húð, eymsli í húð og sjóntruflanir.

Greining: Útbreiddir verkir eða eymsli í búkvöðvum og vöðvum útlima sem hafa varað í 3 mánuði eða lengur og mjög mikil eymsli í 11 af 18 þrýstipunktum (svæði líkamans sérstaklega viðkvæmir fyrir þrýstingi).

Hvernig eru horfurnar fyrir fólk með þetta heilsufarsvandamál

Vefjagigtareinkenni er ástand, ekki sjúkdómur. Lífefnafræðilegt ójafnvægi í heila sem veldur einkennum í líkamanum.

Allir með vefjagigt geta orðið betri og dregið úr einkennum með því að bæta lífshætti. Mikilvægt er að huga að svefnvenjum, matarvenjum, líkamsþjálfun og streitustjórnun.

Hollar lífsvenjur eru svarið

Áherslur á líkamsþjálfun. Áætlun inniber daglegar liðleikaæfingar fyrir stirða vöðva, æfingar minnst þrisvar í viku sem auka hjartslátt og súrefnisflæði um vefi líkamans.

Ávinningur líkamsþjálfunar

Aukið súrefni til vöðva líkamans. Aukið endorphin, dregur úr verkjum. Aukin serotonin framleiðsla í heilanum sem getur dregið úr þunglyndi og kvíða, gefur aukna orku og hjálpar okkur betur að ráða við streitu.

Mælt er með göngu, sundi, sundleikfimi, léttu erobik og æfingum. Mikilvægt er að fara hægt af stað í þjálfun.

Góð næring

Mataræði með flóknum kolvetnum eins og grænmeti, ávöxtum og korni hjálpar til við að efla þrek, áhugahvöt og bæta andlega líðan.

Streitustjórnun

Árangursrík streitustjórnun getur hjálpað til við að draga úr höfuðverk, stífa vöðva, útbrot, blóðþrýstingi, kvíða og þunglyndi.

Það sem felst í streitustjórnun er að koma auga á:

 • Litla og stóra streituvaka í lífinu
 • Áhrif streitu á líkamann og heilsunu
 • Tækni til að ráða við reiði og eiga betri samskipti
 • Slökunartækni
 • Betri leiðir til tímastjórnunar í daglegu lífi

Komast út úr vítahring verkja

Mikilvægt er að ná tökum á verkjum og þáttum sem magna upp verki. Mikilvægt er að læra:

 • Aðferðir til að draga úr kvíða, streitu og þunglyndi
 • Hvernig á að ráða við verki þannig að hræðsla við þá auki ekki einkenni.
 • Hægt er að draga úr verkjum og óþægindum með því að skilja viðbrögð við einkennum, setja sér markmið, og líta til framfara í stað vandamála.
 • Að lifa með vefjagigt er mikilvægt að horfa til þess að skapa fullnægjandi og ánægjulegt líf, jafnvel þó verkir hverfi ekki og læra að framkvæma athafnir daglegs lífs án þess að auka á verkina.

Svefninn er mikilvægur

Ef svefngæðin eru ekki góð er vert að hafa eftirfarandi í huga:

 • Hafðu það forgangsatriði að ná góðum nætursvefni.
 • Hugsað vel um hvað þú borðar og drekkur.
 • Að borða hráan eða sterkan mat fyrir svefn getur skert svefngæði svo og að fara svangur í rúmið. Í lagi er að borða mat sem er kolvetnaríkur og inniheldur lítið prótein og sykur.
 • Reykingar hafa truflandi áhrif á svefn. Ef þú reykir, ekki reykja eftir 18.
 • Forðist að drekka áfengi fyrir svefn. Áfengi brýtur upp svefninn.
 • Lærðu og stundaðu slökunaræfingar sem hjálpa þér að sofna eða sofna aftur ef þú vaknar upp um nætur.

Hvernig getur iðjuþjálfun hjálpað fólki með vefjagigt?

 • Iðjuþjálfar eru bæði þjálfaðir í líkamlegri og andlegri endurhæfingu og geta veitt þjónustu sem getur hjálpað tilfinningalega og líkamlega.
 • Iðjuþjálfi getur aðstoðað við að sjá vanamunstur athafna daglegs lífs fólks og hvort það er í lagi.
 • Iðjuþjálfi notar humor sem verkfæri í verkjastjórnun ásamt, hita-, kæli-, slökunar- og streitumeðferð .Hann ráðleggur einniglíkamsæfingar ofl.
 • Iðjuþjálfi kennir streitustjórnun, tímastjórnun, markmiðssetningu, ákveðni, sem þátt í að draga úr streitu, kvíða, þunglyndi og þreytu.
 • Iðjuþjálfun beitir heildrænni nálgun í íhlutun þunglyndis og kvíða sem oft er fylgifiskur vefjagigtar. Hugræn atferlismeðferð er dæmi um íhlutunarform sem iðjuþjálfun býður uppá.
 • Ef athafnir í vinnu eða á heimili auka á einkenni t.d. auka háls-, bak, eða handarverki, getur iðjuþjálfi komið með ráðleggingar til að draga úr álagi á líkamann.
 • Iðjuþjálfi býður upp á sérstaka meðferð og æfingar til að draga úr handar, axlar og hálsmeinum. Einnig útvega þeir spelkur þegar við á og veita ráðgjöf um notkun þeirra.

Heimildir

Fengið af vefnum, 2005. Slóðin: http://www.aota.org/featured/area6/links/link02n.asp

Goldenberg, D. L., (1996). Chronic Illness and Uncertainty: A Personal and Professional Guide to Poorly Understood Syndromes, What We Know and Do Not Know About Fibromyalgia, Chronic Fatigue, Migraine, Depression and Related Illness. Newton Lower Falls: Dorset Press.

Fries, J. F. og Lorig, K. R. N., (2000). The Arthritis Helpbook: A tested Self-Management Program for Coping with Arthritis and Fibromayalgia. Nashua. Da Capo Press.