IÐJUÞJÁLFUN - BÖRN
ATHYGLISBRESTUR / OFVIRKNI
Aðlögun hjálpar börnum með athyglisbrest (Byggt m.a. á leiðbeiningum Harvey C. Parker)
Við einbeitingarvinnu
- Staðsetja barn í hljóðlátu umhverfi eða nærri góðri fyrirmynd.
- Leyfðu aukatíma til að klára verkefni.
- Styttu verkefni eða vinnustundir til að það samsvari þeim tíma sem athyglin er í lagi, notaðu klukku.
- Brjóttu stór verkefni niður í minni hluta þannig að barnið sjái fyrir endann á þeim.
- Gefðu eitt og eitt verkefni í einu til að komast hjá því að þau verði yfirþyrmandi.
- Gefðu skýrar og hnitmiðaðar leiðbeiningar.
- Leitaðu eftir því að barnið taki virkan þátt í verkefnum/athöfnum.
- Bentu barni á að halda sig að verki, t.d. með sérstöku merki.
Hvatvísi
- Hunsaðu óæskilega hegðun.
- Láttu stuttan tíma líða á milli umbunar eða afleiðinga vegna tiltekinnar hegðunar.
- Gerðu leikhlé ef um óæskilega hegðun er að ræða.
- Fylgstu náið með og veittu leiðsögn þegar farið er úr einu viðfangsefni í annað.
- Notaðu “skynsama” áminningu vegna hegðunarerfiðleika (t.d. forðastu fyrirlestur eða gagnrýni).
- Gefðu gaum að jákvæðri hegðun með því að gefa hrós o.s.frv.
- Taktu eftir jákvæðri hegðun hjá öðrum börnum.
- Leggðu fram hegðunarsamning, og leiðbeindu barni um sjálfstjórn í hegðun.
Hreyfing
- Leyfðu barni stundum að standa þegar vinnur verkefnin sín.
- Gefðu tækifæri á hreyfingu, t.d. láta barnið sitja á boltasessu eða öðru undirlagi er gefur möguleika á einhverri hreyfingu (loftfylltar sessur, þjálfunarboltar).
- Gerðu stutt hlé á milli verkefna og jafnvel hléæfingar (þar sem þarf að taka nokkuð á, ýta, halda á, færa til eða toga í þunga hluti).
- Minntu barn á að fara yfir verkefnið sitt ef fram kemur kæruleysi og fljótfærni í vinnubrögðum.
- Gefðu aukatíma til að klára viðfangsefni (s.s. ef hreyfistjórnun er stirð og hæg).
Skipulagning og röðun
- Hafið reglur um skipulag og hvettu barn til skipulagningar.
- Athugaðu reglulega hvort barn hafi gengið snyrtilega frá eigin hlutum, og hvettu til snyrtimennsku frekar en að refsa fyrir sóðaskap.Settu eitt verkefni fyrir í einu og hafðu fyrirmæli skýr/stutt og e.t.v. myndræn.
- Skiptið verkefni niður í styttri einingar, t.d. merkja við með mismunandi litum hvað á að vinna.
- Farðu yfir leiðbeiningar nýrra verkefna til að vera viss um að barnið hafi skilið þær.
Hlýðni
- Hrósaðu fyrir hlýðni.
- Gefðu tafarlausa svörun.
- Veittu ekki minniháttar óhlýðni athygli.
- Beindu athygli þinni að barninu í því skyni að ýta undir jákvæða hegðun.
- Notaðu “skynsama” áminningu vegna hegðunarerfiðleika (t.d. forðastu fyrirlestur eða gagnrýni).
- Taktu eftir jákvæðri hegðun hjá öðrum.
- Staðsetja barn nærri leiðbeinanda í hópvinnu.
- Notið einstaklingsmiðað umbunarkerfi og samninga.
Skapgerð
- Sýndu traust og hvatningu.
- Hrósaðu fyrir jákvæða hegðun og unnin verkefni.
- Talaðu mjúklega en ekki ógnandi þegar barnið sýnir einkenni kvíða.
- Leitaðu tækifæra fyrir barn til að vera í hlutverki leiðtoga.
- Taktu þér tíma til að ræða einslega við barnið.
- Hvettu til samskipta við jafnaldra/félaga ef barn er mjög feimið eða dregur sig í hlé.
- Umbunaðu reglulega þegar þú tekur eftir vísbendingum um pirring.
- Leitaðu merkja um streitu og sýndu hvatningu eða dragðu úr álagi til að komast hjá reiðiköstum.
- Eyddu meiri tíma í að tala við barn sem er líklegt til að sýna óæskilega hegðun.
- Gefðu stutta þjálfun í reiðistjórnun; hvettu barn til að ganga í burtu, nota róandi aðferðir eða segja fullorðnum sem nærri er frá reiðinni sem er að brjótast út.
Samskipti
- Hrósaðu fyrir viðeigandi hegðun í samskiptum.
- Fylgstu með félagslegum samskiptum barnsins.
- Settu niður markmið með barninu tengt félagslegum samskiptum og hafðu umbunarkerfi.
- Minntu á viðeigandi félagslega hegðun annaðhvort munnlega eða með merkjum.
- Hvettu til samvinnu í verkefnavinnu.
- Útbúðu litla vinnuhópa til að efla félagsfærni.
- Hrósaðu barninu reglulega.
- Láttu barn fá ákveðna ábyrgð í viðurvist félaga þannig að þeir líti jákvætt til þess.
Ef munnleg tjáning er slök
- Viðurkenndu og taktu eftir öllum munnlegum viðbrögðum
- Hvettu barnið til að segja frá nýjum hugmyndum eða upplifunum
- Veldu umræðuefni sem er auðvelt fyrir barnið að tala um
- Lesið fyrir barnið og ræðið um innihald sögunnar
- Í stað munnlegra verkefna leyfið barni að nýta styrkleika sína og leysa þau t.a.m. á sjón- eða myndrænan hátt (sýningar, látbragð, teikningar o.s.frv.).
(Tekið saman af Huldu Björnsdóttur iðjuþjálfa, okt. 2006)
VERKEFNI OG LEIKIR
Eftirfarandi eru TILLÖGUR AÐ VERKEFNUM/LEIKJUM, sem ætluð eru að örva skyn- og hreyfiþroska barna og stuðla að aukinni færni við athafnir. Röð verkefna skiptir ekki máli þó mælt sé með að barnið taki þátt í grófhreyfileikjum áður en sest er við verkefni er örva fínhreyfingar handanna. Tekið skal fram að þetta er aðeins hugmyndabanki.
HANDBEITING OG FÍNHREYFIVINNA
Nauðsynlegt er að huga vel að vinnuaðstöðu við fínhreyfivinnu en mælt er með að barn skipti oft um stöðu. Hafa þarf í huga að barnið sitji vel við borð (með fætur í gólfi eða þær hvíli á stöðugu undirlagi) en til tilbreytingar er hægt að standa, krjúpa eða liggja á maganum við leik og skrifleg verkefni. Æskilegt er að tryggja rólegt vinnuumhverfi og hafi eingöngu hjá sér þá hluti sem nota þarf hverju sinni. Mikilvægt er að verkefni séu miðuð við getu og kröfur auknar eftir því sem færni, einbeiting og úthald eykst. Eftirfarandi viðfangsefni ýta meðal annars undir sambeitingu handa, samhæfingu sjónar og handa, örva snertiskyn, hreyfi- og stöðuskyn handa og efla fínhreyfifærni.
Notið ýmsar daglegar athafnir til að efla fínhreyfifærni
- Taka utan af banana eða appelsínu, brytja niður ávexti.
- Leggja á borð, þurrka af borði.
- Opna og loka ílátum, t.d. rúsínudós eða krukkum með skrúfuðu loki. Setja eitthvað spennandi í þær.
- Klæða sig úr og í föt. Velja fatnað sem auðvelt er að eiga við (einnig glíma við festingar af ýmsu tagi).
- Taka þátt í bakstri, hnoða deig og fletja út með kökukefli, móta smákökur með formum eða skera lengjur í bita með borðhníf. Búa til snúða og bollur.
Leikir of verkefni
- Klappleikir, t.d. klappa á móti öðrum, klappa í kross, klappa í takt.
- Leikur með teygjur, bréfaklemmur, tauklemmur, gatara, heftara o.þ.h. Góður undirbúningur fyrir aðra fínhreyfivinnu.
- Púsla. Byrja með létt púsl, gera rammann fyrst og þyngja eftir getu. Minna barn á að vinna skipulega og nýta sér fyrirmyndir.
- Mósaík. Raða formpúslum eftir fyrirmyndum (mismunandi litir og form). Raða ofan á fyrirmynd í byrjun en síðar hafa fyrirmynd til hliðsjónar. Þyngja eftir getu.
- Þræða perlur eða tölur á band, t.d. eftir ákveðnu mynstri (litir, lögun).
- Þræða reimum upp og niður í gataspjöld (bretti) og sauma ýmis mynstur.
- Perla á platta eftir fyrirmynd (stórar perlur fyrst), vinna með liti og mynstur og temja sér verklegt skipulag. Gott er að fyrirmyndin höfði til áhuga barnsins.
- Setja perlur í pinnabretti, skapa eigin mynstur eða fylgja ákveðnum fyrirmyndum.
- Völundarhús, þar sem færa á kúlur eða pinna eftir göngum með mismunandi lögun.
- Mekkanó, kubbar eða önnur leikföng sem þarf að skrúfa/smella saman og sundur og jafnvel byggja eftir fyrirmyndum.
- Mismunandi spil er reyna á skipulag og að vinna eftir leikreglum, t.d. minnisspil, dóminó, teningaspil o.fl.
Teikni- og litaverkefni
- Liggja á maganum við að teikna og lita. Nota mismunandi skriffæri (tréliti, lyktarpenna, túss, vaxliti eða hristipenna sem titra).
- Teikna stórar myndir á stórt blað á borði, vegg eða gólfi. Nota breiða liti.
- Teikna breið göng eða veg á blað/töflu fyrir barnið og láta það strika línu eftir miðju þeirra. Athugið að setja þetta upp í leik með því að setja límmiða/mynd við enda vegarins og láta barnið strika í átt að þeim. Mjókka göng eftir því sem geta eykst.
- Teikna ýmsa einfalda hluti fríhendis eða draga línu í kringum ýmis form eða innan í formspjöld (hringi, kassa o.fl.). Dýfa garni eða pípuhreinsara í lím og móta eftir útlínum mynda svo fram komi upphleypt brún (einnig hægt að fá aðstoð við að líma beint á útlínur með þykku lími). Er þornað, strika innan með útlínum og lita vel inn í formið.
- Teikna stórar myndir/stafi á töflu eða annan lóðréttan flöt. Nota má myndvarpa til að varpa mynd á stórt blað á vegg. Barnið teiknar eftir útlínum og litar.
- Hugsa sér bókstaf/orð og skrifa svo á krítar- eða tússtöflu. Láta annan geta hvaða verið er að skrifa og skiptast svo á.
- Krota á blað sem lagt er á mismunandi undirlag t.d. mynt, sandpappír.
- Draga upp mynd með því að leggja fyrirmynd að rúðu og blað yfir. Gott er að festa blöðin aðeins svo þau hreyfist ekki úr stað (t.d. með málningarlímbandi) en þó er mikilvægt að barnið styðji við með annarri hendi og teikni með hinni.
- Teikna/strika eftir formspjöldum (skapalónum), fyrst stór mynstur en minnka síðan eftir getu. Hægt að gera við borð eða standandi við vegg/töflu (krefst sambeitingar handanna).
- Ýmis verkefni úr föndurbókum s.s. punktaverkefni/línuverkefni (Geitungurinn 1).
- Teikna frjálst, lita í litabækur eða mála með pensli.
Snertiskynsörvun
- Mála með fingramálningu. Teikna myndir, form eða skrifa stafi.
- Maka raksápu á spegil/borð og teikna eða skrifa ofan í (velja raksápu með mildum ilmi s.s. fyrir konur). Nota gluggasköfu, svamp eða tusku við að hreinsa. Vinda.
- Leikur með vatn og svamp, nota svampinn til að flytja vatnið á milli íláta.
- Leika með leikslím, toga í sundur, toga í lengjur og klippa í búta, troða í litla dós.
- Leika með leir eða leikdeig. Rúlla í lengju/slöngu, klípa í hana með þumli á móti hinum fingrunum til skiptis. Búa til kúlur með því að rúlla leir á milli handa (egg). Fletja út með fingrum eða kökukefli og móta smákökur eða annað. Fela litla hluti í leir og finna aftur (s.s. krónur eða kúlur).
- Rúlla leir í pylsur og móta ýmis form eða bókstafi. Færa fingur yfir útlínur að loknu verki (athugið áður að formin hafi rétta mynd og aðstoðið barnið við að tengja þau ákveðnum fyrirbærum eða hugtökum).
- Fela smáhluti í poka eða kassa fylltum grjónum, baunum eða sandi (s.s. tening, tölu, nælu, lítinn bíl o.fl.). Barnið á blindandi að finna hlutina og nefna þá.
- Teikna með fingri einföld form, stafi eða tölustafi á bak barnsins eða handabak án þess að það sjái, láta það geta hvað var teiknað (geta jafnvel teiknað eins á blað).
- Skrifa stafi með fingrum á teppi, í snjó eða sand og skrifa með ísklökum. Forma stafi úr ýmsum hlutum s.s. pípuhreinsurum, kökudegi eða frönskum kartöflum.
Klippiverkefni
- Rífa pappír í ræmur.
- Klippa mjóa strimla niður í búta eftir breiðum línum. Athuga að nota aðeins stífari pappír en venjuleg blöð.
- Klippa stíf blöð í ræmur eftir breiðum línum. Útbúa t.d. hringi úr ræmunum (mismunandi litir), hefta saman endana og krækja þeim saman þannig að úr verði stór keðja (afmælis-, jóla- eða partýskraut).
- Klippa í leir eða leikslím.
- Klippa út einfaldar myndir eftir beinum línum og bæta síðan við bogadregnum línum þegar færni eykst.
- Klippa út myndir úr blöðum, líma á stórt blað eða í úrklippubók.
- Klippiverkefni úr föndurbókum.
- Teikna stóra bókstafi og tölustafi á blað, sem barnið litar og klippir síðan út.
- Teikna línu í kring um ýmsa hluti t.d. leikföng, hendi eða fót á sjálfum sér og klippa út.
- Klippa út dúkkulísur og föt úr pappír.
- Klippa út pappírsdúka eða karla. Brjóta blað saman nokkrum sinnum, klippa út.
SKYNJUN OG HREYFINGAR
Við hreyfiörvun er mikilvægt að setja æfingarnar upp sem leik þannig að barnið hafi ánægju af þeim. Eftirtaldar tillögur er bæði hægt að nýta einstaklingslega og í hópastarfi. Tilgangur æfinganna er meðal annars að örva skynjun og hreyfingar, auka einbeitingu, úthald og þátttöku barnsins í leik og námi.
- Leggja áherslu á leiki þar sem barnið þarf að draga og ýta hlutum. Reiptog t.d..
- Bera bakpoka með smá þunga í t.d. nokkrum bókum.
- Rúlla á gólfi frá einum stað til annars, t.d. sækja hlut í leiðinni.
- Kollhnís, bæði áfram og afturábak.
- Sveifla sér í kaðli, lenda á grjónapúða eða þykkri dýnu. Hoppa yfir hluti í leiðinni eða reyna að fella þá niður.
- Leggjast yfir stóran bolta eða pullu, lenda á höndum, ganga áfram, taka t.d. hring eða bolta og hitta í mark. Ganga síðan til baka og ná í nýjan hlut.
- Hjólbörugangur. Halda í fætur barnsins sem gengur svo áfram á höndum.
- Vefja barni inn í teppi, strjúka og klappa á líkamshluta, barnið nefnir þá. Rúlla barni síðan hratt út úr teppi.
- Liggja á maga á dýnu, rúlla stórum bolta eða pullu yfir barnið frá toppi til táar.
- Klifra í rimlum, upp og niður, út á hlið.
- Róla, vega salt, renna sér í rennibraut og klifra í klifurgrind.
- Þrautabraut eða þrautakóngur. Raða hlutum þannig að barnið þurfi að klifra, klofa yfir, skríða undir og hoppa á milli hluta.
- Ganga á jafnvægisslá, spýtu eða eftir línu og kasta jafnvel baunapoka/bolta í mark.
- Ganga á lágum tréstultum eða dósastultum.
- Hoppleikir:
- hoppa inn í reiti og hringi, yfir línu eða spýtu
- hoppa á öðrum fæti að einhverju ákveðnu marki
- hoppa jafnfætis sikk-sakk yfir línu
- hoppa á öðrum fæti sikk-sakk yfir línu
- hoppa í parís
- sprellihopp, hendur og fætur sundur/saman, eða víxlhopp þ.e. hendi á móti fæti fram og til baka. Gjarnan á trambólíni.
- Sippa og snú-snú.
- Húllahopp, t.d. sippa með hringnum eða húlla með mjaðmahreyfingu.
- Stífdans. Tveir haldast í hendur í kross með beina handleggi, halla sér afturábak og stíga lítil skref hratt í hring.
- Halda blöðru á lofti eins lengi og hægt er. Slá blöðru á milli með höndum eða badmintonspaða.
- Badminton.
- Pílukast.
- Kasta baunapoka á milli, telja eða nefna vikudaga/mánuði. Gjarnan á trambólíni.
- Tveir kasta baunapokum eða boltum samtímis á milli sín, vera samtaka og telja.
- Boltaleikir: Auðveldara er að grípa stóran bolta og bolta sem fyrst er kastað í gólfið. Má gjarnan nota ýmsa bolta með mismunandi áferð í leik, s.s. mjúka bolta, grófa og stama eða gaddabolta.
- rúlla, sparka eða kasta bolta á milli
- kasta bolta á milli, telja eða nefna vikudaga/mánuði
- henda bolta í mark (körfu eða fötu)
- rekja bolta, t.d. á milli keilna
- kasta bolta í vegg og grípa
- tvíbolti, beint upp eða í vegg.
- Tveir liggja á baki á móti hvor öðrum, lyfta höfði og halda undir hnakka, láta iljar mætast og “hjóla” með fótunum.
- Liggja á maga á dýnu og kasta baunapoka/bolta í mark.
- Liggja á magabretti, ýta sér áfram með höndum, draga sig áfram með kaðli, spyrna sér frá vegg með fótum eða höndum.
- Liggja eða sitja á magabretti og halda í hring eða band sem annar dregur áfram.
- Sitja á dýnu eða bílslöngu. Draga sig áfram á kaðli sem festur er í vegg eða í rimla.
- Gönguferðir, byrja með stutta vegalengd og auka hana smám saman.
- Ganga í ósléttu, t.d. þúfum, möl, snjó og þess háttar. Klifra í stórum steinum.
- Liggja á maganum t.d. við að horfa á sjónvarp eða lesa bók.
- Sund.
Bókalisti
- Leikur og iðja, Snæfríður Þ. Egilson og Þóra Leósdóttir iðjuþjálfar. Rvk. 1997 – Una bókaforlag.
- Þroski og hegðunarvandi, Málfríður Lorange og Matthías Kristiansen. Rvk. 1998 – Una bókaforlag.
- Skyn- og hreyfiþroski, hugmyndafræði og kennsluleiðbeiningar, bæklingar eftir Guðrúnu Árnadóttur iðjuþjálfa og fleiri – Skólavörubúðin.
- Innileikir – Hreyfileikir, Þórey Guðmundsdóttir tók saman, Rvk. 1987 – Bóksala KHÍ.
- Fumlere, tumlere og idræt, P.A. Dal-Frederiksen, bogforlaget DUO Aps, ISBN Nr. 87-87-937-25-5
- Börn og íþróttir, Kari Aasen Gudnersen, Þýð. Karl Guðmundsson 1994 – Íþróttasamband Ísl. Laugardal
- Leikir og leikrænar æfingar fyrir yngstu börnin, Karl Guðmundsson – Íþróttasamband Ísl. Laugardal.
- Tómstunda- og verkefnabækur
(unnið af iðjuþjálfum SLF, 1998, endurbætt af iðjuþjálfum Bjargs 2009)
Hulda Björnsdóttir, iðjuþjálfi Bjargi
Anna María Malmquist, iðjuþjáfi Bjargi.
s: 462-6888
SKRIFT OG NÁM
Markmiðið er að stuðla að aukinni fínhreyfi- og skriftarfærni
Teikni- og skriftarverkefni
- Liggja á maganum við að teikna og lita. Nota breið skriffæri.
- Teikna myndir á stórt blað sem fest hefur verið á vegg eða lagt á gólf.
- Nota stórar handahreyfingar við að mynda bókstafi, annað hvort við lóðréttan flöt (vegg, spegil) eða á miðju gólfi. Mynda skýrar og ákveðnar strokur. Láta annan geta hvaða stafur eða orð var skrifað og skiptast svo á (staðið hlið við hlið).
- Teikna stóra bók- eða tölustafi á töflu eða annan lóðréttan flöt. Nota má myndvarpa eða tölvu til að varpa stöfum/orðum á stórt blað á vegg. Barnið strikar eftir útlínum og litar ofaní með breiðum lit. Dýfa t.d. þykku garni eða pípuhreinsara í lím og móta eftir útlínum svo fram komi upphleypt brún. Er þornað, færa fingur eftir útlínum, nefna staf og/eða hljóða það sem stafurinn segir.
- Draga upp mynd með því að leggja fyrirmynd að rúðu og blað yfir. Gott er að festa blöðin aðeins (t.d. málningarlímband) svo þau hreyfist ekki úr stað en þó er mikilvægt að barnið styðji við með annarri hendi og teikni með hinni. Byrja með einfaldar myndir og fjarlægja límband er færni eykst.
- Teikna/strika eftir formspjöldum (skapalónum) í mismunandi stærðum. Hægt að gera við borð eða standandi við vegg (krefst sambeitingar handanna).
- Teikna og semja myndasögur, skrifa stuttar og hnitmiðaðar setningar undir.
- Skrifa stutt bréf, skilaboð, ljóð, halda dagbók eða útbúa ýmiskonar lista (s.s. aðstoða við gerð innkaupalista).
- Skrifa verkefni í stuttum lotum. Þegar skriflegu verkefni er lokið er það lagt til hliðar um stund, og síðan lesið yfir þar sem þá reynist oft betur að greina mistök.
- Útbúa minnislista um rituð verkefni, s.s. hvað þarf að muna eftir áður en hafist er handa og skoða að loknu verki (góð vinnuaðstaða, vandvirkni, sambeiting handanna (styðja við blað með víkjandi hönd), bil milli stafa og orða, stafsetning, snyrtimennsku, skipulag og nákvæmni, málfræði og setningaskipan).
- Ýmis verkefni úr föndurbókum (Geitungurinn).
- Teikna frjálst, lita í litabækur eða mála með pensli.
Snertiskynsörvun
- Mála með fingramálningu. Teikna myndir, form eða skrifa stafi/orð.
- Maka raksápu á spegil/borð og teikna eða skrifa ofan í.
- Leika með leir eða leikdeig. Rúlla leir í lengjur/pylsur og móta bókstafi/orð. Færa fingur yfir útlínur að loknu verki (athugið áður að stafir hafi rétta lögun) og aðstoðið barnið við að tengja hljóð/heiti við staf, eða viðeigandi hluti eða fyrirbæri við orð.
- Teikna með fingri ýmis form, bók- eða tölustafi á bak barnsins eða handabak án þess að það sjái, láta það geta hvað var teiknað (geta jafnvel teiknað eins á blað).
Klippiverkefni
- Klippa út myndir úr blöðum, líma á stórt blað eða í úrklippubók. Búa jafnvel til myndasögu og raða myndum í skipulagða röð. Skrifa stuttan texta undir hverja mynd.
- Klippiverkefni úr föndurbókum.
- Teikna stóra bókstafi og tölustafi á blað, sem barnið litar og klippir síðan út.
- Teikna línu í kringum ýmsa hluti t.d. hendi eða fót á sjálfum sér og klippa út.
- Klippa út pappírsdúka eða karla. Brjóta blað saman nokkrum sinnum, klippa út.
(tekið saman af, Huldu Björnsd., nóv. 2005)
Ýmis ráð eru til að auka einbeitingu og verklegt úthald í skólanum
- Oft er æskilegt að nemandinn sitji nálægt kennara þannig að hægt sé að vera með merkjakerfi þeirra á milli (augnatillit eða annað). Sama sæti í lengri tíma er ákjósanlegur kostur, framarlega, þar sem lítið er um sjónræn áreiti er gætu haft truflandi áhrif.
- Huga þarf að því að utanaðkomandi áreiti trufli barnið sem minnst, t.d. umgangur eða hávaði/glampi frá glugga.
- Staðsetja góða fyrirmynd nálægt nemanda (skipu-lagðan og vinnusaman nemanda). Hugsanlega auka fjarlægð milli skólaborða.
- Hafa á borðinu einungis þau námsgögn sem verið er að nota hverju sinni.
- Auka fjölbreytni verkefna og brjóta upp námsefni svo virðist ekki óyfirstíganlegt.
- Gefa skýrar leiðbeiningar um hvað á að vinna með hverju sinni (merkja með áberandi lit, setja bréfaklemmu á þá síðu sem unnið er með).
- Hafa verkefni stutt í byrjun en auka síðan lengd þeirra eftir því sem úthald eykst (setja tímamörk og nota jafnvel klukku sem gefur merki eftir ákveðinn tíma).
- Kennari noti aðferðir er höfða til mismunandi skynfæra við miðlun upplýsinga/fyrirmæla, s.s. snertingu, heyrnrænar- og sjónrænar vísbendingar (orð, myndir, merkingar, látbragð, skriflegar upplýsingar).
- Leyfa regluleg vinnuhlé og hreyfingu (s.s. ganga um og dreifa/safna saman blöðum, þurrka af töflu, færa hluti til, fara í sendiferðir) og gera ákveðnar hlé- eða líkamsæfingar (einnig gott fyrir allan bekkinn).
- Útbúa rólegt horn í stofunni þangað sem nemandinn getur dregið sig í hlé stutta stund, slakað á eða litið í bók (hafa þar jafnvel þunna dýnu á gólfi, púða, hrúgald og/eða ruggustól).
- Ef nemandi er mjög órólegur getur reynst gott að þrýsta nokkuð fast og snöggt 4-5 sinnum niður á axlir hans. Einnig getur virkað róandi að leggja auka þyngd á axlir nemandans, grjónapúða eða bakpoka með nokkrum bókum í, í u.þ.b. 10-15 mín. í senn (á 2 tíma fresti).
- Nemandi fái að hafa hluti hjá sér til að handfjatla og kreista, s.s. mjúkan bolta, hveitifyllta blöðru, bauna- eða grjónapoka, mjúkdýr eða annað sem fellur vel í hendi. Einnig hluti sem hægt er að narta eða bíta í (gúmmífígúrur á blýantsenda, sogrör, vatnsflösku). Slíkt getur virkað róandi og/eða hjálpað barni að einbeita sér að verki.
- Sitja á boltasessu eða annarri loftfylltri sessu sem veitir barni nokkurn hreyfanleika og dregur úr þörfinni á að framkvæma hreyfiathafnir sem hafa truflandi áhrif á vinnu nemandans.
(Hulda Björnsd. iðjuþjálfi tók saman, 2007)